Handbolti

Guðmundur: Verulegur léttir að hafa klárað þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var fegin að íslenska liðinu tókst að landa mikilvægum sigri í Lettlandi í dag. Strákarnir okkar byrjuðu vel en lentu í vandræðum með Lettana í seinni hálfleiknum þar sem um tíma munaði aðeins einu marki á liðunum.

„Það er verulegur léttir að hafa klárað þennan leik. Við byrjuðum vel varnarlega en gerðum of mikið af mistökum sóknarlega til að byrja með. Síðan var hálfleikurinn bara mjög góður miðað við það að við erum í raun að spila með nýtt lið," sagði Guðmundur Guðmundsson en hvorki Aron Pálmarsson eða Snorri Steinn Guðjónsson gátu verið með í leiknum vegna meiðsla.

„Það var ný uppstilling og það vantaði báða leikstjórnendurna, Guðjón Valur stóð sig mjög vel engu að síður og gerði mjög mikilvæga hluti fyrir liðið," sagði Guðmundur en Guðjón Valur lék stærsta hluta leiksins sem leikstjórnandi og var auk þess markahæstur með 9 mörk.

Ísland var 17-11 yfir í hálfleik en Lettarnir náðu að minnka muninn í eitt mark um miðjan seinni hálfleik.

„Síðari hálfleikurinn var alls ekki nógu góður. Við gerum einhver sjö tæknimistök á fyrstu tíu mínútunum í síðari hálfleik og förum með fimm dauðafæri. Við hleypum þeim ókeypis inn í leikinn og það var algjör óþarfi," sagði Guðmundur.

„Það getur allt gerst í slíkri stöðu og þá má ekkert útaf bregða. Auðvitað var þetta ekki nægilega gott en það er greinileg þreyta hjá mörgum leikmönnum og við þurfum að safna krafti fyrir sunnudaginn. Það er bara hreinn og klár úrslitaleikur við Austurríkismenn í Laugardalshöllinni," segir Guðmundur en það verður ítarlegra viðtal við Guðmund í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×