Handbolti

Hrafnhildur Ósk: Besti leikurinn síðan ég byrjaði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stórskyttan Hrafnhildur Ósk Skúladóttir var vitanlega í skýjunum eftir nítján marka sigur Íslands á Úkraínu í undankeppni HM 2011 í handbolta.

Liðin mætast aftur ytra um næstu helgi en þá ræðst hvort liðið kemst í úrslitakeppnina sem fer fram í desemeber. Ljóst er að Ísland er í frábærri stöðu.

„Maður er nánast orðlaus. Þetta var frábær leikur," sagði Hrafnhildur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „Varnarleikurinn var frábær og Jenný í ruglinu fyrir aftan okkur. Það er bara ekki hægt að tapa með svona vörn og markvörslu."

Hrafnhildur hefur spilað lengi með landsliðinu og segir að leikurinn í dag hafi verið einstakur. „Þetta er pottþétt besti leikur sem við höfum spilað. Það hlýtur bara að vera."

„Það munaði miklu að markvörðurinn þeirra varði varla tuðru og hefðu þær nánast getað hengt upp handklæði í markinu. Markvarslan er gríðarlega mikilvæg og hafði mikið að segja í dag."

Hún sagði að það hafi verið skýr fyrirmæli í dag að halda ótrauð áfram þótt forystan væri mikil. „Það munar mjög miklu að fara út með nítján mörk í plús eða bara fimm ef við hefðum farið hina leiðina. Þetta var því stórkostlegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×