Handbolti

Anna Úrsúla: Við keyrðum yfir þær

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir segir að íslenska landsliðið hafi átt von á erfiðum leik gegn Úkraínu í dag en að annað hafi komið á daginn.

Ísland vann í dag nítján marka sigur á Úkraínu, 37-18, þar sem að íslensku leikmennirnir fóru á kostum. Liðin mætast aftur ytra um næstu helgi en í húfi er sæti í úrslitakeppni HM 2011 í Brasilíu.

„Við erum í skýjunum. Við bjuggumst við erfiðum leik en svo var mótstaðan engin og við keyrðum yfir þær," sagði Anna en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan. „Nítján marka sigur er staðreynd og það er frábært veganæsti fyrir leikinn um næstu helgi."

„Það var mikil og góð samvinna í vörninni og við náðum að fá hraðaupphlaup eins og við ætluðum að gera. En þetta var í raun allt annað lið en við höfum verið að skoða að undanförnu. Kannski áttu þær von á einhverju öðru liði."

„Að minnsta kosti var upphitun þeirra fyrir leikinn sérstök. Þær hlupu ekkert og létu nægja að teygja."

Hún segir að íslenska liðið hafi sýnt að það sé mikil breidd í liðinu. „Við erum flestar með yfir fimm mörk og það er mjög gott. Við unnum á þeirri fjölbreytni sem við búum yfir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×