Handbolti

Elvar Friðriksson til liðs við Hammarby

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elvar í leik með Valsmönnum.
Elvar í leik með Valsmönnum. Mynd/Valli
Handknattleikskappinn Elvar Friðriksson er genginn til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby. Elvar skrifaði undir eins árs samning við sænska félagið.

Elvar var á mála hjá danska úrvalsdeildarliðinu Lemvig á síðustu leiktíð en spilaði áður með Val.

„Kærastan mín er að fara í nám í Upsala þannig að það sem kom til greina var Stokkhólmssvæðið. Ég æfði með Guif sem er mjög gott lið með góða aðstöðu," sagði Elvar í samtali við Vísi.

Íslendingarnir Kristján Andrésson og Haukur Andrésson eru hjá Guif. Kristján sem þjálfari en Haukur spilar á miðjunni.

„Hammarby frétti af veru minni og gerði mér tilboð. Félagið virðist vera að rétta úr kútnum varðandi fjárhaginn. Það eru ungir og fínir strákar í liðinu," segir Elvar sem hefur glímt við meiðsli á öxl.

„Ég meiddist á öxlinni í fyrra og spilaði bara sex leiki í dönsku deildinni í fyrra. Danska deildin er talin sterkari en markmiðið er að koma mér í gang, ná mér í öxlinni," segir Elvar. Hann segir forráðamenn félagsins vita af axlarmeiðslunum og ætli að gefa sér gott svigrúm til þess að hrista meiðslin af sér.

Elvar var skoðaður af virtum lækni fyrir skömmu sem telur hann á góðri leið með að jafna sig af meiðslum sínum.

„Það er um mánuður þangað til ég get farið að skjóta og um tveir mánuðir þar til ég get farið að spila vörn. Þannig að þetta er á góðri leið. Menn hafa nú lagt skóna á hilluna vegna meiðsla á borð við þessi þannig að ég vona að þetta gangi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×