Viðskipti innlent

Fimm milljarðar til Grikklands frá EFTA ríkjum

Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherr Noregs.
Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherr Noregs.
Norðmenn tilkynntu Grikkjum á mánudag að Ísland, Noregur og Liechtenstein myndu að nýju veita Grikkjum styrki úr Þróunarsjóði EFTA, að því er kemur fram meðal annars á vef norska utanríkisráðuneytisins.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, lýsti þessu yfir á blaðamannafundi með grískum kollega sínum, Stavros Lambrinidis. Sá var í sérstakri heimsókn í Noregi til að votta Norðmönnum samúð sína vegna hryðjuverka Anders Behrings Breivik.

Áðurnefndar greiðslur til Grikklands voru frystar 19. maí þar sem Grikkir höfðu ekki þótt standa nægilega vel við ýmsar skuldbindingar sínar vegna þeirra. Á þeim tíma höfðu Grikkir fengið rúmar 270 milljónir króna.

Tæplega fimm milljarðar króna fara í ár til Grikklands í gegnum þessa styrki, en þátttaka Íslands í þeim er tilkomin vegna EES-samstarfsins.

Styrkirnir miða að því að auka félagslegan og efnahagslegan jöfnuð í ríkjum Evrópusambandsins í Mið- og Suður-Evrópu.

Í heildina leggur Ísland til 7 milljónir evra á ári í sjóðinn, eða tæpa 1,2 milljarða króna.

- kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×