Fótbolti

Steinþór og Kristján skoruðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Örn Sigurðsson.
Kristján Örn Sigurðsson. Mynd/Anton
Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni í norska boltanum í dag en þeir Steinþór Freyr Þorsteinsson og Kristján Örn Sigurðsson skoruðu báðir fyrir lið sín í norsku B-deildinni.

Landsliðsmarkvörðurinn Stefán Logi Magnússon mátti í dag hirða knöttinn þrívegis úr eigin marki þegar að lið hans, Lilleström, tapaði 3-0 fyrir Sogndal á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni.

Stefán Logi og Björn Bergmann Sigurðsson léku báðir allan leikinn í liði Lilleström.

Þá vann Viking 1-0 sigur á Stabæk í Íslendingaslag. Indriði sigurðsson lék allan leikinn í liði Viking en Birkir Bjarnason var ekki í liðinu að þessu sinni. Bjarni Ólafur Eiríksson og Pálmi Rafn Pálmason voru báðir í byrjunarliði Stabæk en Bjarni Ólafur var tekinn af velli í síðari hálfleik.

Þá fóru fjölmargir leikir fram í norsku B-deildinni. Steinþór Freyr Þorsteinsson skoraði eitt mark fyrir Sandnes Ulf sem vann 5-3 sigur á Bryne. Hann var svo tekinn af velli á 84. mínútu.

Kristján Örn Sigurðsson skoraði svo eitt mark fyrir Hönefoss sem vann 4-1 sigur á Alta. Kristján Örn lék allan leikinn sem og Arnór Sveinn Aðalsteinsson í vörn Hönefoss.

Guðmann Þórisson var í byrjunarliði Nybergsund sem tapaði fyrir Mjöndalen, 1-0, á heimavelli. Guðmann var tekinn af velli á 64. mínútu.

Þá vann Asker 4-2 sigur á Randaberg og lék Atli Heimisson allan leikinn í framlínu fyrrnefnda liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×