Fótbolti

SönderjyskE lagði OB í Íslendingaslag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúrik Gíslason í leik með OB.
Rúrik Gíslason í leik með OB. Nordic Photos / Getty Images
OB tapaði í dag illa fyrir SönderjyskE, 4-2, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni. Rúrik Gíslason kom inn á sem varamaður fyrir OB undir lok leiksins.

Þeir Hallgrímur Jónsson og Eyjólfur Héðinsson léku allan leikinn fyrir SönderjyskE og Arnar Darri Pétursson var á bekknum. Ólafur Ingi Skúlason lék ekki með liðinu vegna meiðsla.

FC Kaupmannahöfn vann svo í dag 2-1 sigur á Silkeborg. Sölvi Geir Ottesen lék allan leikinn fyrir FCK en Ragnar Sigurðsson var á bekknum.

Þetta var fimmti sigur FCK í röð í deildinni en liðið er enn taplaust eftir sjö umferðir og með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.

SönderjyskE komst í dag upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum og er með tólf stig. OB er í fjórða sætinu með ellefu stig.

Þá var einnig leikið í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Eiður Aron Sigurbjörnsson lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar þegar að lið hans, Örebro, tapaði fyrir Helsingborg, 2-0, á útivelli.

Þá vann AIK nauman sigur á Syrianska, 1-0. Helgi Valur Daníelsson lék allan leikinn í liði AIK.

AIK er í þriðja sæti deildarinnar með 44 stig, tíu stigum á eftir toppliði Helsingborg. Örebro er í níunda sæti deildarinnar með 32 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×