Fótbolti

Danir vilja að Michael Laudrup taki við danska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Laudrup stýrir hér liði sínu á móti Jose Mourinho.
Michael Laudrup stýrir hér liði sínu á móti Jose Mourinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danir vilja að Michael Laudrup taki við danska landsliðinu af Morten Olsen en hann fékk yfirburðarfylgi í skoðunakönnun Voxmeter meðal dönsku þjóðarinnar. Danir eru eins og Íslendingar að leita sér að framtíðarþjálfara karlalandsliðsins.

Heil 43 prósent vilja að Michael Laudrup taki við danska landsliðinu en þúsund manns tóku þátt í skoðunarkönnunni sem var unnin frá 4. til 6. september.

„Michael er stórt nafn í dönskum fótbolta og það er eðlilegt að hann hafi mikið fylgi. Hann er vinsæll meðal Dana og það spilar aðallega inn í frábær ferill hans sem leikmanns. Það er engin vafi um það að Michael er í sérstakri stöðu í dönskum fótbolta," sagði Jim Stjerne Hansen aðalritari danska fótboltasambandsins.

Michael Laudrup er í dag þjálfari Mallorca-liðsins á Spáni en hann lék á sínum tíma með Juventus, Real Madrid og Barcelona með frábærum árangri.

Norðmaðurinn Stale Solbakken kom í öðru sæti í könnuninni með 8 prósent atkvæða en hann náði flottum árangri með FC Kaupmannahafnarliðið.

Frank Arnesen fékk fimm prósent atkvæða og Troels Bech, þjálfari Silkeborg, fékk þrjú prósent. 36 prósent sem svöruðu vissu samt ekki hver ætti að verða eftirmaður Morten Olsen.

Morten Olsen hættir með danska landsliðið eftir EM en eftir glæsilegan sigur á Norðmönnum á þriðjudagskvöldið þá eiga Danir enn góða möguleika á því að komast í úrslitakeppni EM næsta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×