Fótbolti

Drillo fékk -3 í einkunn frá BT fyrir leikinn á Parken í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egil „Drillo" Olsen.
Egil „Drillo" Olsen. Mynd/AFP
Norska landsliðið átti aldrei möguleika á móti því danska á Parken í gær og landsliðsþjálfari tólftu bestu knattspyrnuþjóðar heims fékk að heyra það frá dönsku miðlunum eftir leikinn.

Egil „Drillo" Olsen mætti með sitt varnarskipulag á Parken en það gekk engan veginn upp því danska liðið hóf stórsókn í upphafi leiks og átti aldrei í miklum vandræðum með norska liðið.

Nicklas Bendtner skoraði bæði mörk Dana í leiknum en danska landsliðið varð að vinna þennan leik til að eiga möguleika á að vinna riðilinn.

BT gaf Drillo -3 í einkunn fyrir skipulagið í gær. „Kom á Parken með ekkert annað plan en að verjast og hélt sig við það allan leikinn. Sorglegt, sorglegt, sorglegt," segir í stuttri en hnitmiðuðum rökstyðningi á einkunn Drillo.

Portúgal, Danmörk og Noregur hafa öll þrettán stig á toppi riðilsins en Norðmenn eiga bara einn leik eftir. Staða norska liðsins er því lökust af þessum þremur liðum sem berjast um sæti í úrslitakeppni EM. Efsta liðið fer beint áfram en liðið í 2. sæti fer í umspil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×