Handbolti

Oscar Carlén meiddist aftur illa á hné - óttast um krossbandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Feðgarnir Oscar Carlen og Per Carlen.
Feðgarnir Oscar Carlen og Per Carlen. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Oscar Carlén, leikmaður HSV Hamburg og sænska landsliðsins, varð fyrir miklu áfalli á æfingu með þýska liðinu í vikunni. Hann sleit þá líklega krossband í annað skiptið á átta mánuðum.

Carlén var enn í endurhæfingu eftir að hafa slitið krossbönd í febrúar og var ekki byrjaður að spila með HSV Hamburg. Carlén hafði sett stefnuna á það að spila fyrsta leikinn sinn á móti sínum gömlu félögum í SG Flensburg-Handewitt en sá leikur fer fram 11. október.

„Hnéð er bólgið og krossbandið skemmdist en það sést ekki á myndum hvort að það sé alveg slitið. Ég þarf því að bíða aðeins eftir að fá að vita nákvæmlega hversu alvarlegt þetta er," sagði Oscar Carlén við Expressen.

Oscar Carlén kom til HSV Hamburg fyrir þetta tímabil en hann sleit krossabandið í fyrsta leiknum eftir HM í Svíþjóð í febrúar, þá sem leikmaður SG Flensburg-Handewitt.

Ef Oscar Carlén er með slitið krossband þá missir hann örugglega af EM í Serbíu í janúar en hann stóð sig mjög vel á HM í Svíþjóð í ár þar sem hann skorað 39 mörk og hjálpaði Svíum að ná fjórða sætinu.

Þetta eru líka slæmar fréttir fyrir föður hans, Per Carlén, sem þjálfar HSV Hamburg og situr þegar í sjóðheitu sæti eftir slæma byrjun þýsku meistaranna á þessari leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×