Handbolti

Anna Úrsúla kemur til Póllands í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. Mynd/Daníel
Valskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir ætlar ekki að láta veikindi stoppa sig frá því að spila með íslenska kvennalandsliðinu í handbolta á æfingamóti í Chorzow í Póllandi.

Anna Úrsúla fór ekki með íslenska hópnum út á þriðjudagsmorguninn vegna veikinda en stefndi alltaf á það að hitta hópinn seinna í vikunni. Hún lagði síðan af stað í morgun og verður komin til Chorzow í Póllandi í kvöld.

„Anna Úrsúla kemur til móts við hópinn í kvöld og við verðum að sjá til hversu mikið hún getur verið með því hún er búin að vera veik," sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari A-landslið kvenna rétt áður en liðið fór á æfingu í dag.

Anna Úrsúla er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu og þá sérstaklega í vörninni en hún skoraði þó 11 mörk í umspilsleikjunum tveimur á móti Úkraínu í vor þar sem íslenska kvennalandsliðið tryggði sér sæti í úrslitakeppni HM í fyrsta sinn.

Íslenska liðið leikur við Holland á morgun á þessu fjögurra þjóða æfingamóti og mætir síðan Póllandi og Tékklandi um helgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×