Handbolti

Umfjöllun: FH meistari meistaranna í fyrsta sinn eftir sigur á Val í vítakeppni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Vilhelm
FH lagði Val 39-38 eftir tvær framlengingar og vítakeppni í Meistarakeppni HSÍ í kvöld í ótrúlegum leik sem boðar bara gott fyrir komandi keppnistímabil í N1 deild karla í handbolta.

FH hóf leikinn af miklum krafti skoraði fjögur fyrstu mörkin. Valsmenn virtust ekki klárir í verkefnið og fóru ekki að berja frá sér fyrr en í seinni hálfleik venjulegs leiktíma.

FH var 17-13 yfir í hálfleik en Valsmenn voru fljótir að vinna muninn upp í seinni hálfleik og komust yfir í fyrsta sinn þegar fjórar mínútur voru eftir. FH tókst að jafna 27-27 og því var framlengt.

FH fékk frábært tækifæri til að gera út um leikinn í lok fyrri framlengingar þremur fleiri. Þá varði Ingvar Guðmundsson tvö skot áður en Ólafur Gústafsson náði að jafna og tryggja FH aðra framlengingu.

Aftur var jafnt að henni lokinni og því þurfti að grípa til vítakeppni. Þar skoraði FH fjögur mörk gegn þremur og fagnaði vel í leikslok fyrsta sigri félagsins í Meistarakeppni HSÍ.

 

FH-Valur 39-38 (17-13, 27-27, 31-31, 35-35)

FH vann 4-3 í vítakeppni

Mörk FH: Andri Berg Haraldsson 15/2, Ólafur Gústafsson 5, Hjalti Pálmason 4, Atli Rúnar Steinþórsson 4, Ragnar Jóhannsson 2, Ari Magnús Þorgeirsson 2, Baldvin Þorsteinsson 2, Þorkell Magnússon 1.

Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12, Sigurður Örn Arnarson 4

Mörk Vals: Sturla Ásgeirsson 11/4, Orri Freyr Gíslason 7, Anton Rúnarsson 5, Sveinn Aron Sveinsson 4, Valdimar Fannar Þórsson 4, Finnur Ingi Stefánsson 1, Agnar Smári Jónsson 1, Gunnar Harðarson 1, Magnús Einarsson 1.

Varin skot: Ingvar Guðmundsson 14, Sigurður Ingiberg Ólafsson 15




Fleiri fréttir

Sjá meira


×