Handbolti

Bretar leita enn eftir leikmönnum í handboltalandsliðið

Breska kvennalandsliðið í handbolta leitar enn eftir leikmönnum fyrir ÓL í London 2012.
Breska kvennalandsliðið í handbolta leitar enn eftir leikmönnum fyrir ÓL í London 2012. Heimasíða breska handboltasambandsins.
Bretar hafa unnið hörðum höndum að því að undirbúa sig sem allra best fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í London á næsta ári. Sem gestgjafar ÓL verða Bretar með lið í keppnisgreinum á borð við handbolta karla og kvenna – og breska handknattleikssambandið er enn að leita að leikmönnum sem gætu styrkt landsliðin fyrir ÓL.

Á heimasíðu breska handknattleikssambandsins er enn boðið upp  á þann möguleika að leikmenn sæki hreinlega um að komast í liðið og skiptir fyrri reynsla af handbolta engu máli. Og þar að auki þurfa umsækjendur ekki að vera með breskt vegabréf samkvæmt frétt Daily Mail.

Í sumum tilfellum dugar það að eiga ættir að rekja til Bretlands og þeir sem hafa búið í lengri tíma á Bretlandseyjum koma einnig til greina.

Bretar hafa allt frá árinu 2006 unnið markvisst að því að finna hæfileikaríka leikmenn í bresku handboltalandsliðin.  Kvennaliði hefur sýnt miklar framfarir og má nefna að árið 2006 tapaði Bretland með 40 marka mun fyrir landsliði Færeyja. Í mars árið 2008 snérist dæmið við og Bretar unnu frændþjóð Íslands með þriggja marka mun.

Um 700 konur óskuðu eftir því að komast í breska landsliðið árið 2006 og af þeim 180 sem voru prófaðar höfðu aðeins 10 þeirra leikið handbolta áður. Alls voru 20 leikmenn valdir í úrtakshópinn og komu margar þeirra úr öðrum íþróttum, s.s. ruðningi, körfubolta, netbolta, fótbolta, brennibolta.

Stór hluti hópsins, alls 12 leikmenn, hefur dvalið í Århus Danmörku undanfarin misseri við æfingar og spilað sem lið í deildakeppni.  Vigdis Holmeset, annar af þjálfurum breska kvennalandsliðsins, segir í viðtali við norska Dagblaðið að breska liðið gæti án efa spjarað sig vel í efstu deild í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×