Handbolti

Þjálfarar AG sögðu upp störfum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Klavs-Bruun í leik með danska landsliðinu árið 2009.
Klavs-Bruun í leik með danska landsliðinu árið 2009. Nordic Photos / AFP
Það gengur mikið á hjá danska ofurliðinu AG Kaupmannahöfn en í dag sögðu þjálfararnir Klavs-Bruun Jörgensen og Sören Hersiknd upp störfum hjá félaginu.

Á föstudaginn var sex starfsmönnum á skrifstofu félagsins var sagt upp störfum en 25 manna starfslið hefur unnið fyrir skartgripasalann Jesper „Kasi" Nielsen, eiganda AG.

Í dag sögðu svo þjálfararnir Jörgensen og Herskind upp störfum en þeim hafði verið boðið að vera áfram hjá félaginu sem þeir voru samningsbundnir til næsta vors.

Þeir töldu hins vegar óásættanlegt að vera undir stjórn Magnus Andersson sem ráðinn var yfirmaður íþróttamála hjá AG fyrir þessa leiktíð. Guðmundur Guðmundsson gegndi því starfi áður en hann tók við liði Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

Þeir Jörgensen og Herskind ákváðu því í dag að segja upp störfum og hafa tekið hatt sinn og staf - sem þýðir að Magnus Anderson mun stjórna liði AG í Kaupmannahöfn á morgun þegar að liðið á leik í dönsku úrvalsdeildinni, sem og gegn Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu um helgina.

Í sumar hugðust forráðamenn AG ráða Ola Lindgren, fyrrum þjálfara Löwen, til starfa hjá AG en ekkert varð úr þeirri ráðningu. En nú er ekki ólíklegt að Ola Lindgren, sem Nielsen rak frá Löwen á sínum tíma, verði ráðinn aðstoðarþjálfari hjá Magnus Andersson.

Íslendingarnir Snorri Steinn Guðjónsson, Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson og Ólafur Guðmundsson eru allir á mála hjá AG en sá síðastnefndi er nú í láni hjá Nordsjælland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×