Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði á blaðamannafundi sambandsins í dag að ráðning Lars Lagerbäck í starf landsliðsþjálfara muni gagnast allri íslenskri knattspyrnu, ekki bara A-landsliðið karla.
„Lars mun koma með nýja og ferska þekkingu í íslenska knattspyrnu," sagði Geir en helstu ummæli hans af blaðamannafundinum má sjá hér fyrir ofan.
„Við væntum þess að hann muni leggja gott eitt til allrar okkar starfsemi. Við erum mjög opnir fyrir því að fá hans þekkingu inn. Það eru ekki margir sem þekkja jafn vel til landsliðsmála í Evrópu líkt og Lars. Ég held að við fáum ekki betri mann en hann til þess."
Lagerbäck mun hafa búsetu í Svíþjóð en verja eins miklum tíma á Íslandi og kostur er eða þörf þykir, eins og Geir orðaði það.
„Nú kemur hann að alveg hreinu borði og nú ræður hann ferðinni," bætti Geir við. „Það var fyrst gengið frá ráðningunni í gærkvöldi og hafa engar sérstakar línur verið lagðar enn. Nú hefst starfið fyrir fullt og allt."
Lagerbäck er þó enn að störfum sem ráðgjafi hjá sænska knattspyrnusambandinu og mun fyrst hella sér út í starf landsliðsþjálfara Íslands eftir áramót.
Íslenski boltinn