Fótbolti

Drillo spáir því að Birkir Már og félagar tapi bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Egil Drillo Olsen, þjálfari norska fótboltalandsins, er ekki bjartsýnn fyrir hönd Birkis Más Sævarssonar og félaga í Brann sem mæta Aalesund í norska bikarúrslitaleiknum á sunnudaginn. Aalesund getur unnið bikarinn í annað skiptið á þremur árum en Brann vann bikarinn síðast árið 2004.

„Aalesund er það lið í bikarúrslitunum sem fer minnst eftir mínni fótbolta-heimspeki þó að Kjetil Rekdal sé örugglega ekki sammála því," sagði Egil Drillo Olsen.

Drillo er ekki á því að Brann eigi meiri möguleika á því að vinna bikarinn þrátt fyrir að vera fimm sætum ofar en Aalesund í norsku úrvalsdeildinni.

„Ég er á því að sigurlíkur Aalesund séu 55 prósent á móti 45 prósent sigurlíkum hjá Brann," sagði Drillo en Brann er á flugi eftir 6-3 sigur á Rosenborg um síðustu helgi. Aalesund gerði hinsvegar 1-1 jafntefli við Lilleström.

„Ég er alveg öruggur á því að þetta verður opinn og jafn leikur. Þarna eru tvö fín lið að mætast og það verður örugglega mikil fótboltaveisla á Ullevaal fyrir framan fulla stúku," sagði Egil Drillo Olsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×