Fótbolti

Undrabarnið Götze tryggði Dortmund sigur á Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Hinn nítján ára Mario Götze tryggði í dag sínum mönnum í Dortmund 1-0 sigur á Bayern München í toppslag þýsku úrvalsdeildarinnar.

Bayern heldur toppsætinu en Dortmund, sem hikstaði nokkuð í upphafi tímabilsins, er nú aðeins tveimur stigum á eftir Bæjurum.

Götze skoraði markið á 65. mínútu eftir að Jerome Boateng, varnarmanni Bayern, mistókst að hreinsa boltann úr eigin vítateig. Götze skoraði örugglega af um níu metra færi.

Arjen Robben var í byrjunarliði Bayern í dag í fyrsta sinn síðan hann meiddist þann 1. október síðastliðinn. Hann náði sér þó ekki á strik í dag.

Lítið var um færi í fyrri hálfleiknum þó svo að Bayern hafi verið mun meira með boltann. Götze fékk svo tvö góð færi í upphafi síðari hálfleiks áður en hann skoraði markið dýrmæta.

Leikmenn Dortmund náðu svo að koma knettinum aftur í netið á 74. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Heimamenn sóttu stíft undir lokin en náðu ekki að nýta færin sem þeir sköpuðu sér.

Þýskalandsmeistararnir fögnuðu því dýrmætum sigri og er nú mikil spenna í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar.

Gladbach er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig, jafn mörg og Dortmund. Schalke er svo í fjórða sætinu með 25 stig.

Úrslit dagsins:

Wolfsburg - Hannover 4-1

Gladbach - Bremen 5-0

Freiburg - Hertha 2-2

Köln - Mainz (frestað)

Schalke - Nürnberg 4-0

Bayern - Dortmund 0-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×