Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 21-32 | Eimskips bikar karla

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Stefán
Haukar slógu Bikarmeistara Vals út úr Eimskipsbikarnum með ellefu marka sigri 32-21 á heimavelli Vals í dag og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitum keppninnar. Eins og tölurnar gefa til kynna var sigurinn öruggur en Haukar voru átta mörkum yfir í hálfleik 15-7.

Það var aðeins fyrstu átta mínúturnar sem Valsmenn stóðu í Haukum. Valur var þá 3-2 yfir en þá hrökk Birkir Ívar í marki Hauka í gang fyrir aftan frábæra vörn liðsins. Haukar gengu á lagið með góðum sóknarleik að auki og juku forskot sitt jafnt og þétt þar til munaði níu mörkum á liðunum 6-15 áður en veikur Anton Rúnarsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks.

Hafi fáir áhorfendur Vals vonast eftir kraftaverki í seinni hálfleik þá virtust leikmenn liðsins ekki hafa neina trú á slíku. Þeir mættu andlausir til leiks í seinni hálfleik og Haukar náðu fljótt tíu marka forystu 17-7. Mestur varð munurinn 13 mörk á liðunum, 15-28, og þrátt fyrir að leikurinn leystist upp á lokakaflanum og Haukar slökuðu á tókst Valsmönnum aðeins að minnka muninn í ellefu mörk áður yfir lauk.

Það verður því í fyrsta skipti frá árinu 2007 að Valur leikur ekki til bikarúrslita.

Miklu munaði um að helsti markaskorari Vals í undanförnum leikjum, Anton Rúnarsson, lék veikur í dag og náði sér ekki á strik. Hafa ber þó í huga að Gylfi Gylfason helsti markaskorari Hauka skoraði aðeins tvö mörk en ólíkt hjá Val stigu samherjar Gylfa rækilega upp í leiknum og þá ekki síst Stefán Rafn Sigurmannsson og Tjörvi Þorgeirsson sem var sérstaklega góður í fyrri hálfleik og fékk mikla hvíld í seinni hálfleik.

Aron: Gaman að sjá Stefán Rafn springa út
Mynd/Stefán
"Það kom á óvart hversu öruggur sigurinn var. Við vorum búnir að undirbúa okkur vel fyrir þennan leik. Við vorum búnir að byggja mikið hungur upp fyrir bikarinn og vorum búnir að kortleggja Val vel. Varnarleikurinn var mjög þéttur og markvarslan góð fyrr aftan. Sóknarlega vorum við að spila lengst af mjög vel," sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka sem minntist sérstaklega á framgöngu Stefáns Rafns Sigurmannssonar sem fór á kostum í sóknarleik Hauka.

"Það var gaman að sjá Stefán Rafn springa loksins út í sókninni. Ég er búinn að vera að bíða eftir þessu í allan vetur. Mér fannst hann sýna það í allt sumar að það byggi mikið í honum. Nú þarf hann að halda einbeitingu og halda áfram að vinna eins og hann hefur verið að gera og sýna stöðugleika," sagði Aron sem getur ekki kvartað undan miklu í leiknum nema þá fjölda tæknifeila í upphafi leiks.

"Það kom mér á óvart þegar ég skoðaði tölfræðina eftir leik hvað við gerum marga tæknifeila. Það var kannski það eina neikvæða við leikinn. Mér fannst sóknarleikurinn mjög beittur. Það var mikil ógnun af skyttunum og línuspilið gott. Yfirtalan sem hefur gengið mjög vel hjá okkur hikstaði aðeins en við náðum tökum á því í seinni hálfleik," sagði Aron að lokum.

Óskar Bjarni: Þetta var hörmung
Mynd/Stefán
"Þeir voru mjög þéttir varnarlega og við áttum í miklum vandræðum með sóknarleikinn. Höndin fór bara alltaf upp og ef það var ekki tæknifeill þá varði Birkir. Þetta var gríðarlega erfitt sóknarlega og svo klukkuðum við þá ekki hinum megin á vellinum og fengum því hvorki markvörslu né hraðaupphlaup, við vorum bara lélegir í dag," sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals eftir leik.

"Við náðum aldrei að koma til baka í leiknum. Ég var ekki hræddur þó við værum undir 9-5 eða eitthvað í fyrri hálfleik en það gerðist aldrei neitt og þetta fór bara á hinn veginn. Við ákváðum að byrja seinni hálfleikinn í 6-0 í stað þess að reyna eitthvað og sjá hvort Bubbi (Hlynur Morthens) kæmi aftur inn en það bara gekk ekkert upp hjá okkur og allt hjá þeim. Þetta fór á versta veg, var bara hörmung," sagði Óskar Bjarni sem hafði stýrt Val í fjóra bikarúrslitaleiki í röð sem þrír sigruðust, 2008,2009 og 2011.

"Það er til skammar að tapa svona. Við höfum náð góðum árangri í bikarnum og viljum vera í bikarúrslitum en í mínum huga er sárast hvað við buðum upp á hérna, okkur sjálfum, félaginu, þetta er ekki boðlegt."

"Það var líka erfitt að við fengum lítið út úr hægra horninu með Finn Inga meiddan og Anton var að spila veikur eins og sást. Ég setti Valdimar inn í liðið sem ég ætlaði ekki að gera fyrir áramót. Það var erfitt að ná taktinum sem maður er alltaf að glíma við í svona miklum meiðslum gegn svona þéttu liði. Við fundum ekki taktinn í þessu hvorki í vörn né sókn. Við litum út eins og aumingjar," sagði Óskar Bjarni að lokum.

Stefán Rafn: Þyrsti meira í að komast áfram
Mynd/Stefán
"Þetta var mjög gott í dag. Við mættum tilbúnir til leiks meðvitaðir um að í bikarnum er bara einn séns. Við sýndum í dag að við ætlum að halda áfram í bikarnum," sagði Stefán Rafn Sigurmannsson sem fór mikinn í sóknarleik Hauka í dag.

"Ég fann mig mjög vel enda var liðið að spila frábærlega og allir að standa sig. Þá verður maður að koma þessum boltum inn og skila einhverju til liðsins,"sagði Stefán en á löngum köflum voru öll skot inni hjá honum og samherjum hans.

"Við hittum sérstaklega vel í fyrri hálfleik, Tjörvi var frábær og skotin fóru mjög vel inn. Svo koma alltaf einhver skot í leiknum sem markmenn eiga að vera en svona er boltinn."

"Við bjuggumst við hörkuleik og mættum klárir til leiks. Við bjuggumst við baráttuleik eins og er alltaf í bikarnum en okkur þyrsti greinilega meira í að halda áfram en Valsarana, það sýndi sig í dag," sagði Stefán Rafn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×