Körfubolti

Snæfell síðasta liðið inn í sextán liða úrslit | Vann Val á Hlíðarenda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Ólafur Jónsson
Jón Ólafur Jónsson Mynd/Vilhelm
Snæfellingar tryggðu sér sæti í 16 liða úrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta með því að vinna 18 stiga sigur á Valsmönnum, 95-77, í Vodfonehöllinni á Hlíðarenda í kvöld. Snæfell var með gott forskot allan leikinn og sigurinn var aldrei í hættu.

Jón Ólafur Jónsson fór á kostum í kvöld og var með 33 stig á 32 mínútum en hann hitti úr 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum í leiknun. Quincy Hankins-Cole var með 22 stig og Marquis Sheldon Hall skoraði 16 stig. Garrison Johnson skoraði 24 stig fyrir Val og Igor Tratnik var með 17 stig og 17 fráköst.

Snæfell vann fyrsta leikhlutann 23-13 en Valsmenn náðu að minnka muninn í sex stig í öðrum leikhluta, 27-33. Snæfell endaði fyrri hálfleikinn hinsvegar á 11-5 spretti og leiddi með tólf stigum í hálfleik, 44-32.

Valsmenn héngu í Snæfellingum í seinni hálfleiknum en sigurinn var þó aldrei í hættu enda Hólmarar alltaf með ágætt forskot. Munurinn varð síðan 18 stig í lokin.

Snæfell var síðasta liðið til að komast í pottinn þegar dregið verður í næstu umferð á morgun. Hin fimtán liðin í 16 liða úrslitum eru: Fjölnir, Tindastóll, Keflavík, KR, Grindavík, Njarðvík, Hamar, Stjarnan, KFÍ, Breiðablik, Þór Akureyri, Njarðvík-b, Höttur, Skallagrímur og Þór Þorlákshöfn.



Valur-Snæfell 77-95 (13-23, 19-21, 21-22, 24-29)

Valur: Garrison Johnson 24/6 fráköst, Igor Tratnik 17/17 fráköst, Austin Magnus Bracey 11, Ragnar Gylfason 11, Birgir Björn Pétursson 10/15 fráköst, Alexander Dungal 4/5 fráköst.

Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 33/8 fráköst, Quincy Hankins-Cole 22/8 fráköst, Marquis Sheldon Hall 16/8 fráköst, Ólafur Torfason 8, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 5/4 fráköst, Guðni Sumarliðason 3, Þorbergur Helgi Sæþórsson 3, Sveinn Arnar Davidsson 3, Hafþór Ingi Gunnarsson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×