Hún hefur tekið að sér ráðgjafahlutverk hjá íslenska útivistarmerkinu Cintamani. Steinunn mun ásamt hönnunarteymi hanna nýju línu sem kemur væntanlega á markað á næsta ári. Jafnframt hefur Steinunn verið fyrirtækinu innan handar við opnun nýrrar verslunar í Bankastræti þar sem Sævar Karl var áður til húsa.
Hönnun Steinunnar hefur fengið góðan hljómgrunn hér á landi sem og erlendis. Hún hefur hannað föt fyrir stór tískuhús á borð við Calvin Klein og Gucci og því kann það að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að hún skuli hafa tekið að sér ráðgjafastarf hjá útivistarfyrirtæki.

Hún bendir jafnframt á að innan Cintamani séu margir mjög góðir fatahönnuðir og að sér finnist þarna vera kominn vísir að einu af nokkrum tískuhúsum á Íslandi. „Þarna er hönnun í hávegum höfð og fyrirtækið hefur verið í margra ára uppbyggingu."
Steinunn segir hennar hlutverk vera fyrst og fremst að færa fyrirtækið upp á alþjóðlegan stall og hún er ákaflega spennt fyrir nýja húsnæðinu í Bankastræti.
„Þarna eru arkitektar að vinna í alls konar innréttingum. Sjálfri finnst mér mjög áhugavert að skoða hvernig fólk verslar og hvernig fólk upplifir verslun, sem ég held að sé að breytast á Íslandi. Og ekki skemmir fyrir að þetta er í húsnæði Sævars, mannsins sem á mikinn heiður af því að byggja upp fagurfræði á Íslandi."
freyrgigja@frettabladid.is