Körfubolti

Vilja stöðva einelti og önnur samfélagsmein

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Auglýsingin á Njarðvíkurbúningunum hefur vakið athygli.
Auglýsingin á Njarðvíkurbúningunum hefur vakið athygli.
Það hefur vakið nokkra athygli að körfuknattleikslið Njarðvíkur skartar auglýsingu á búningi sínum þar sem stendur: „Stöðvum einelti.“ Forkólfar körfuknattleiksdeildarinnar segja að einelti sé samfélagslegt vandamál á Suðurnesjum og þeir vilja leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn þessu samfélagsmeini.

„Einelti er samfélagslegt vandamál á Suðurnesjum líkt og víðar. Það hafa verið að koma fréttir úr Garðinum og svo þarf ekki að minnast á harmleikinn í Sandgerði. Við höfðum tækifæri til þess að velja málefni í gegnum samstarf okkar við Landsbankann. Skólarnir hérna á svæðinu fá 500 þúsund krónur í gegnum samstarfssamninginn til þess að taka þátt í átakinu gegn einelti,“ sagði Davíð P. Viðarsson hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur, sem fékk heimamann til þess að hanna merkið sem er á búningunum.

„Þetta hefur mælst vel fyrir og vakið mikla eftirtekt í bæjarfélaginu. Við höfum verið að fá mjög góð viðbrögð frá foreldrum og öðrum. Við teljum að það þurfi að vera ákveðin vakning í þessum málum og vildum leggja okkar af mörkum.“

Davíð segir að Njarðvíkingar hætti ekki þarna í baráttunni gegn samfélagsmeinum. „Við erum að setja af stað forvarnarverkefni sem heitir „Bolti gegn böli“. Þar ætlum við að leita á náðir fyrirtækja svo hægt sé að kaupa fyrirlestra og annað sem getur hjálpað okkar félagsmönnum. Það mun ná til alls félagsins en ekki bara körfuknattleiksdeildarinnar. Þar verður tekið á öllum samfélagslegum vandræðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×