Skoðun

Fjárhagsumsvif Bændasamtaka Íslands

Þórólfur Matthíasson skrifar
Samkvæmt ríkisreikningi ársins 2010 runnu 16,5 milljarðar króna af skatttekjum til landbúnaðartengdra málefna. Greiðslur til Bændasamtaka Íslands námu um hálfum milljarði króna auk þess sem Bændasamtökin sáu (og sjá) um útgreiðslu fjár úr ríkissjóði eða um að safna nauðsynlegum upplýsingum vegna slíkra útgreiðslna.

Í skýrslu frá mars 2011 bendir Ríkisendurskoðun á að stjórnvöld og Alþingi hafi falið Bændasamtökum Íslands að fara með opinbert vald. Ríkisendurskoðun telur að Bændasamtök Íslands séu bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga við framkvæmd verkefna. Lágmarksupplýsingar um umsvif og framkvæmd eru fólgnar í ársreikningi og ársskýrslu samtakanna. Ætla verður að Bændasamtökin séu skuldbundin til að birta hvorutveggja opinberlega.

Undirritaður hefur farið fram á það í tvígang að fá aðgang að ársreikningum Bændasamtaka Íslands. Þeim beiðnum mínum hefur ekki verið sinnt þrátt fyrir skýra skyldu samtakanna samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar.

Að óreyndu máli verður ekki fullyrt að neitt gruggugt sé að finna í ársreikningum Bændasamtaka Íslands. En meðan samtökin skirrast við að veita aðgang að þessum upplýsingum vakna óþægilegar grunsemdir.




Skoðun

Sjá meira


×