Handbolti

Sveinbjörn: Liðugari í stuttbuxum

Hjalti Þór Hreinsson á Akureyri skrifar
Sveinbjörn, í markmannsbuxum.
Sveinbjörn, í markmannsbuxum.

Sveinbjörn Pétursson skartaði forláta stuttbuxum í leiknum gegn Val í N1-deildinni í kvöld. Hann bætti þar með enn á sjálfspíningarhvatarkenningar um markmenn. Sveinbjörn varði þó vel en hann segist vera sem nýr maður á nýju ári.

Hinn markmaður liðsins, Stefán "Uxi" Guðnason, tjáði Vísi að hann tæki á sig stílbrot markmannanna, en Stefán klæddist síðbuxum eins og venjan er. "Ég vissi ekki af þessu hjá Bubba, ég tek þetta á mig og kippi þessu í liðinn næst," sagði Stefán sem lofaði þar með að klæðast stuttbuxum líka í næsta leik.

Sveinbjörn sjálfur segir að hann sé liðugari í stuttbuxunum. "Ég er yfirleitt í stuttbuxum á æfingum svo það er ekkert nýtt, en það er annað að vera í þessu í leik. Þetta er svo létt og þægilegt. Það er nýr og breyttur Bubbi eftir áramót, ný klipping og stuttbuxur," sagði Sveinbjörn hress.

Hann var líka ánægður með stigin tvö. "Það var haustbragur á þessum leik, en þetta var ærleg áminnig fyrir liðið að það þýðir ekkert að slaka á. Vörnin var frábær í fyrri hálfleik en við slökuðum of mikið á í þeim seinni. En stigin voru góð," sagði Sveinbjörn sem hefur lítið æft undanfarið vegna smávægilegrar tognunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×