Körfubolti

Snæfell missti næstum því frá sér unninn leik en vann í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Hjartarson.
Óskar Hjartarson. Mynd/Heimasíða Snæfells
Snæfell vann 100-99 sigur á Tindastól í frábærum framlengdum leik í Síkinu á Sauðarkróki í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld en Snæfellsliðið náði með því að enda fjögurra leikja taphrinu sínu. Snæfell var með unninn leik en misstu niður 16 stiga forskot á síðustu fimm mínútunum.

Snæfellsliðið tókst hinsvegar að redda sér í framlengingunni og það var nýliðinn Óskar Hjartarson sem var hetja liðsins í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni en Óskar kom frá Mostra á dögunum.

Quincy Hankins-Cole var með 26 stig og 11 fráköst hjá Snæfelli og Jón Ólafur Jónsson skoraði 24 stig. Helgi Rafn Viggósson skoraði 22 stig fyrir Tindastól og Maurice Miller var með þrefalda tvennu; 19 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar.

Snæfell byrjaði mjög vel, komst i 10-0, 16-6 og var 24-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Snæfell var síðan með sex stiga forskot í hálfleik, 42-36, og var komið með tólf stiga forskot, 71-59, fyrir lokaleikhlutann.

Snæfellingar voru í góðum málum um miðjan fjórða leikhlutann enda búnir að ná sextán stiga forskoti, 78-62, og það leit því ekkert út fyrir annað en öruggan útisigur.

Stólarnir voru hinsvegar ekki búnir að gefast upp og unnu næstu fimm mínútur 19-2 og Friðrik Hreinsson kom þeim yfir í 81-80 þegar 3,4 sekúndur voru eftir. Marquis Sheldon Hall fékk þá tvö víti og gat tryggt Hólmurum sigurinn. Hann klikkaði hinsvegar á seinna vítinu sínu og því varð að framlengja.

Það var síðan Óskar Hjartarson sem tryggði Snæfelli sigurinn með því að skora úr öðru víti sínu 4,1 sekúndu fyrir leikslok en þetta var fyrsti leikur hans með Snæfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×