Handbolti

Guðmundur stýrir heimsúrvalinu í sýningarleik í New York

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Nordic Photos / Getty Images
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari og þjálfari Rhein-Neckar Löwen, mun í dag stýra liði heimsúrvalsins gegn úrvalsliði þýsku úrvalsdeildarinnar í sýningarleik í New York í Bandaríkjunum.

Leikurinn fer fram nú síðdegis og verður í beinni útsendingu á þýsku sjónvarpsstöðinni Sport1, sem lesa má um hér.

Margar gamlar og fornfrægar kempur verða í liði heimsúrvalsins, svo sem Magnus Wislander, Jackson Richardson, Joel Abati, Ljubomir Vranjes, Enric Masip, Goran Sprem, Andrei Xepkin og Tomas Svensson.

Þetta er annað árið í röð sem að þessi leikur er settur á í New York til að vekja athygli á handboltaíþróttinni í Bandaríkjunum. Velimir Petkovic, þjálfari Göppingen, stýrir úrvalsliði þýsku úrvalsdeildarinnar.

Guðmundur mun svo halda heim á leið til að hefja undirbúning íslenska landsliðsins fyrir EM í Serbíu sem hefst eftir rúmar tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×