KR vann fyrsta sigur sinn í A-riðli Reykjavíkurmótsins í kvöld þegar liðið lagði Leikni 6-3 í miklum markaleik þar sem staðan var jöfn í hálfleik 3-3.
Það er óhætt að segja að leikurinn hafi farið fjörlega af stað. Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði strax á 6. mínútu. Fimm mínútum síðar hafði Óskar Örn Hauksson jafnað metin og á 15. mínútu kom Kjartan Henry Finnbogason KR yfir.
Kjartan Andri Baldvinsson jafnaði metin á 25. mínútu en sjö mínútum síðar voru Íslands- og bikarmeistarar KR komnir yfir á ný með marki Dofra Snorrasonar. Ólafur Hrannar Kristjánsson jafnaði metin á ný með sjötta marki fyrri hálfleiks á 44. mínútu.
KR-ingar löguðu varnarleik sinn í seinni hálfleik og héldu uppteknum hætti í sókninni. Aron Bjarki Jósepsson kom KR í 4-3 á 50. mínútu og tíu mínútum síðar bætti Kjartan Henry við sínu öðru marki. Óli Pétur Friðþjófsson skoraði loks sjötta mark KR á síðustu mínútu leiksins og gerði endanlega út um leikinn.
Leikurinn var í beinni útsendingu SportTV.is og hægt er að sjá öll níu mörkin hér.
Fótbolti