Lítið hefur verið um óvænt úrslit á opna ástralska meistaramótinu í tennis til þessa og allt besta tennisfólk heims komst nokkuð auðveldlega áfram.
Í karlaflokki komust þeir Novak Djokovic og Andy Murray áfram án þess að reyna mikið á sig og hið sama má segja um Serenu Williams og Mariu Sharapovu. Wimbledon-sigurvegarinn Petra Kvitova komst einnig auðveldlega áfram.
Helst hefur komið á óvart að heimamaðurinn Lleyton Hewitt er kominn áfram í 16-manna úrslitin en hann fékk svokallaðan Wild Card-þátttökurétt á mótinu. Hann og Bernard Tomic eru einu Ástralarnir sem eru enn með í keppninni en þeir eiga erfiðar viðureignir í næstu umferð. Hewitt mætir Djokovic og Tomic þarf að keppa við Roger Federer.
Flest af besta tennisfólki heims er enn á meðal þátttakenda en nú fer að draga til tíðinda. 16-manna úrslitin hefjast í nótt og er sýnt frá keppninni í beinni útsendingu á Eurosport og Eurosport 2.
