Handbolti

Hedin lét undan pressunni | Hættir með Aalborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Hedin.
Robert Hedin. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robert Hedin, þjálfari norska handboltalandsliðsins og danska úrvalsdeildarliðsins Aalborg Håndbold, fær ekki leyfi hjá norska handboltasambandinu að þjálfa áfram bæði liðin. Hedin mun því hætta að þjálfa danska liðið í vor.

Hedin hefur verið gagnrýndur í Noregi fyrir að ætla að sinna báðum störfum en aðrir þjálfarar í Noregi telja að vegna starfa sinna í Danmörku sinni hann ekki landsliðsþjálfarastarfinu sem skildi. Norska sambandið setti Hedin því stólinn fyrir dyrnar og þvingaði hann til að velja á milli.

„Samningurinn minn rennur út í maí og sambandið sagði hreint og klárt nei. Það var áhugi í Aalborg að ég yrði áfram með liðið en ég fer eftir því sem sambandið segir. Ég er ekki sár eða reiður og sætti mig við þessa ákvörðun þeirra," sagði Robert Hedin.

Hedin tók við norska landsliðinu af Gunnari Pettersen árið 2008. Undir hans stjórn hefur liðið farið á þrjú stórmót og náði sínum besta árangri á EM í Austurríki 2010 þegar liðið varð í 7. sæti.

„Það verður bara í fínu lagi að einbeita sér bara að landsliðinu en þetta eru samt svo ólík störf. Ég tel að þetta breyti ekki miklu fyrir mig því landsliðið hefur fengið fulla einbeitingu hjá mér," sagði Robert Hedin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×