Handbolti

Ísland mætir Þýskalandi í mars

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason í leik gegn Þýskalandi á HM í Svíþjóð í fyrra.
Arnór Atlason í leik gegn Þýskalandi á HM í Svíþjóð í fyrra. Mynd/Valli
Þýska handknattleikssambandið tilkynnti í gær að Þjóðverjar munu spila æfingalandsleik gegn Íslandi í Mannheim þann 14. mars næstkomandi.

Þýskaland varð í sjöunda sæti á EM í Serbíu en náði engu að síður ekki að tryggja sér þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleikanna í Lundúnum. Undankeppnin fer fram í apríl en Ísland tryggði sér þátttöku í henni með góðum árangri á HM í Svíþjóð í fyrra.

„Þetta verður mjög góð prófraun fyrir okkur," sagði Martin Heuberger, landsliðsþjálfari Þýskalands, við þýska fjölmiðla. „Ísland mun mæta með sitt sterkasta lið enda aðeins þremur vikum áður en undankeppni Ólympíuleikanna hefst."

Leikið verður í SAP-Arena, heimavelli Rhein-Neckar Löwen. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari er einnig þjálfari Löwen og því nánast á heimavelli.

Ísland er í riðli með Króatíu, Japan og Síle í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×