Handbolti

Füchse Berlin hafði betur gegn Kára Kristjáni og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Nordic Photos / Getty Images
Kári Kristján Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Wetzlar gegn Füchse Berlin í kvöld en það dugði ekki til. Síðarnefnda liðið vann þriggja marka sigur, 29-26, eftir spennandi lokamínútur.

Wetzlar lék á heimavelli í kvöld og var skrefi á eftir lengst af í leiknum. En liðið náði að minnka muninn í eitt mark þegar lítið var eftir af leiknum en allt kom fyrir ekki. Berlínarliðið reyndist sterkari á lokasprettinum og sér í lagi skyttan Sven-Sören Christophersen, fyrrum leikmaður Wetzlar. Hann skoraði alls átta mörk í leiknum.

Dagur Sigurðssoner þjálfari Füchse Berlin en liðið styrkti stöðu sína í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum í kvöld. Liðið er með 35 stig og er með þriggja stiga forystu á Hamburg sem á reyndar leik til góða.

Þá hafði Grosswallstadt betur gegn Bergische, 24-23. Sverre Andreas Jakobsson lék í vörn Grosswallstadt en Rúnar Kárason skoraði eitt mark fyrir síðarnefnda liðið í leiknum.

Grosswallstadt er í ellefta sæti deildarinnar, Wetzlar því þrettánda en Bergischer HC er í sextánda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×