Golf

McIlroy vann og komst í efsta sæti heimslistans | Tiger frábær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rory McIlroy á mótinu í Florida í dag.
Rory McIlroy á mótinu í Florida í dag. Nordic Photos / Getty Images
Norður-Írinn Rory McIlroy bar í kvöld sigur úr býtum á Honda-meistaramótinu á PGA-mótaröðinni og varð þar með næstyngsti kylfingur sögunnar sem kemst í efsta sæti heimslistans.

McIlroy spilaði á 69 höggum í dag og alls á 268 höggum eða tólf höggum undir pari. Hann þurfti þó að hafa fyrir hlutunum enda sótti Tiger Woods stíft að honum í dag. McIlroy hélt þó ró sinni og fagnaði góðum sigri.

Tiger spilaði stórkostlegt golf í dag og skilaði sér í hús á 62 höggum eða átta undir pari vallarins. Hann var í 2.-3. sæti mótsins ásamt Bandaríkjamanninum Tom Gillis sem jafnaði Tiger með fugli á átjándu holu.

Þetta eru góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Tiger sem hefur ekki unnið mót á PGA-mótaröðinni síðan í september árið 2009. Hann virðist vera að spila betur með hverju mótinu og nálgast óðum sitt gamla form.

Lee Westwood varð fjórði eftir að hafa spilað á sjö höggum undir pari í dag. Hann var samtals á átta höggum undir pari.

McIlroy er 22 ára gamall og vann sitt fyrsta stórmót á Opna bandaríska meistaramótinu í fyrra. Tiger var 21 árs þegar að hann komst í efsta sæti heimslistans í fyrsta sinn á sínum tíma en McIlroy verður 23 ára í maí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×