Handbolti

Dramatískt jafntefli hjá Füchse Berlin | Stórsigur Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Johannes Sellin skoraði jöfnunarmark Füchse Berlin.
Johannes Sellin skoraði jöfnunarmark Füchse Berlin. Nordic Photos / Getty Images
Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, náði jafntefli gegn Göppingen á heimavelli eftir dramatískar lokamínútur. Lokatölur voru 30-30. Kiel vann sinn leik en meistararnir í Hamburg gerðu óvænt jafntefli.

Göppingen hafði forystu í hálfleik, 15-14, og leiddi lengst af í þeim síðari. Heimamenn í Berlín náðu þó að vinna sig aftur inn í leikinn og jafna metin þegar sjö mínútur voru eftir.

Jafnt var á öllum tölum eftir þetta en eftir spennuþrungnar lokamínútur komst Füchse Berlin í sókn þegar um 20 sekúndur voru eftir. Ivan Nincevic náði að skora um leið og leiktíminn rann út en markið var ekki dæmt gilt þar sem Dagur var búinn að biðja um leikhlé.

Leikurinn byrjaði aftur þegar sex sekúndur voru til leiksloka og var boltanum spilað út í hægra hornið þar sem Johannes Sellin fór inn og skoraði jöfnunarmarkið.

Alexander Petersson er meiddur og tók því ekki þátt í leiknum en Füchse Berlin er í öðru sæti með 36 stig.

Flensburg og Hamburg koma næst með 34 stig en síðarnefnda liðið gerði óvænt jafntefli við nýliða Hüttenberg á útivelli, 26-26.

Kiel er enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 44 talsins, eftir stórsigur á Hannover-Burgdorf á útivelli, 43-24. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel en þjálfari liðsins er Alfreð Gíslason.

Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk fyrir Hannover-Burgdorf, Hannes Jón Jónsson tvö og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×