Ragnar Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen spiluðu allan leikinn í hjarta varnarinnar með FC Kaupmannahöfn sem lagði Bröndby að velli 3-1 í efstu deild dönsku knattspyrnunnar í dag.
Senegalinn Dame N'Doye var hetja heimamanna. Hann skoraði tvö mörk í síðari hálfleik eftir að staðan hafði verið jöfn 1-1 í leikhléi. Pape Pate Diouf, sem einnig er frá Senegal, kom FCK yfir í fyrri hálfleik en Simon M. Christoffersen jafnaði leikinn fyrir gestina.
FC Kaupmannahöfn hefur nú sex stiga forskot á toppi deildarinnar á Nordsjælland sem tapaði 1-0 gegn SönderjyskE fyrr í dag. Hallgrímur Jónasson skoraði mark SönderjyskE í leiknum.
