Fótbolti

Rekinn eftir aðeins 57 daga í starfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Krassimir Balakov.
Krassimir Balakov. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Krassimir Balakov entist ekki lengi í starfi hjá þýska liðinu Kaiserslautern en hann var rekinn í dag þrátt fyrir að hafa bara tekið við liðinu fyrir 57 dögum. Kaiserslautern féll úr þýsku úrvalsdeildinni á dögunum.

Krassimir Balakov er orðinn 46 ára gamall en hann sló í gegn með búlgarska landsliðinu á HM í Bandaríkjunum 1994. Balakov tók við Kaiserslautern-liðinu af Marco Kurz sem var rekinn á miðju tímabili en Balakov fórnaði starfi hjá Hajduk Split til að taka við þýska liðinu.

Kaiserslautern var aðeins búið að ná í 20 stig í 26 leikjum þegar Balakov tók við og ekki tók þá betra við því liðið tapaði fimm fyrstu leikjunum undir hans stjórn. Þetta er versta byrjun þjálfara hjá Kaiserslautern.

Kaiserslautern náði á endanum aðeins þremur stigum í átta leikjum undir stjórn Balakov og endaði í neðsta sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×