Handbolti

Gunnar Berg tekur við Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Berg Viktorsson.
Gunnar Berg Viktorsson. Mynd/Stefán
Gunnar Berg Viktorsson mun að óbreyttu taka við þjálfun karlaliðs Stjörnunnar í handbolta. Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi.

Hann hefur ekki skrifað undir samning enn en segir að viðræður gangi vel. „Þetta er hið besta mál og ég er spenntur fyrir þessu verkefni," segir Gunnar en hann hefur síðustu þrjú ár verið þjálfari 2. flokks hjá Haukum auk þess sem hann hefur verið í þjálfaraliði meistaraflokks eftir að hann hætti að spila sjálfur.

Stjarnan komst í umspil um sæti í N1-deild karla en tapaði fyrir Aftureldingu í úrslitarimmunni. Gunnar Berg segir of snemmt að segja til um hvort að liðið taki stefnuna beint upp í N1-deildina en honum líst þó vel á liðið.

„Ég sá ágætis möguleika í liði Stjörnunnar. Þarna eru margir leikmenn sem hafa verið og eru enn í yngri landsliðum. Þeir munu fá sénsinn áfram," segir hann.

„Ég get svo ímyndað mér að bæta við 1-2 eldri leikmönnum til að fá betra jafnvægi á liðið en þetta á allt saman eftir að koma í ljós."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×