Serbinn Novak Djokovic og Spánverjinn Rafael Nadal mætast í dag í úrslitaleik franska meistaramótsins í tennis en þeir eiga báðir möguleika á því að komast í sögurbækurnar með sigri.
Novak Djokovic er efstur á heimslistanum og getur þarna orðið fyrsti maðurinn í 43 ár til þess að vinna fjögur risamót í röð, Djokovic er búinn að vinna 27 leiki í röð á risamótum og þar á meðal eru sigrar á Nadal í þremur úrslitaleikjum.
Djokovic vann Nadal í úrslitaleik Wimbledon-mótsins í júlí, í úrslitaleik opna bandaríska mótsins í september og í úrslitaleik opna ástralska mótsins í janúar en að þessu sinni er Nadal á leirvelli sem er hans sérsvið.
Rafael Nadal á líka möguleika á því að komast í sögubækurnar en hann getur unnið opna franska meistaramótið í sjöunda sinn og bætt met sitt og Bjorn Borg. Nadal hefur unnið 51 af 52 leikjum sínum á opna franska mótinu í ferlinum og hann hefur ekki tapað einu setti á mótinu í ár.
Nadal hefur alls unnið tíu risamót á ferlinum en þrátt fyrir magnaða sigurgöngu að undanförnu þá hefur hinn 25 ára gamli Djokovic "aðeins" unnið fimm risamót á ferlinum.
Roger Federer komst tvisvar nálægt því að afreka fernuna sem Djokovic vonast til að ná í dag eða bæði árin 2006 og 2007. Í bæði skiptin tapaði Federer fyrir Nadal í úrslitaleik opna franska meistaramótsins.

