Handbolti

Helga: Von á ákvörðun fyrir helgi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/Daníel
Helga H. Magnúsdóttir, sem á sæti í mótanefnd EHF, á von á því að ákveðið verði í vikunni hvar EM kvenna í handbolta verði haldið í desember næstkomandi.

Holland átti að halda mótið en hætti skyndilega við í upphafi mánaðarins. Nokkur lönd, þar með talið Ísland, voru sögð hafa áhuga á að halda mótið og vonast Helga til að niðurstaða liggi fyrir í vikunni.

„Þetta er allt á mjög viðkvæmu stigi eins og er og því lítið hægt að segja eins og sakir standa," sagði hún. „En líklegast er að mótið verði haldið í landi sem er annað hvort nýbúið að halda mót eða mun halda mót á næstunni. Það eru fimm lönd sem koma helst til greina að mínu mati - Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Serbía og Króatía."

EM 2010 fór fram í Danmörku og Noregi og þá mun næsta HM kvenna fara fram í Króatíu og Ungverjalandi. Svíar og Serbar eru svo nýbúnir að halda stórmót í karlaflokki.

Allar þessar fimm þjóðir eru búnar að tryggja sér þátttökurétt á mótinu en Ísland missti naumlega af sæti á EM. Stelpurnar náðu þó bestum árangri af þeim sem komust ekki áfram úr undankeppninni og segir Helga að ágætar líkur séu á því að Ísland komist inn - verði mótið haldi í landi sem er þegar komið áfram.

„Það hefur reyndar ekkert verið rætt enda hefur öll orka farið í að finna mótinu nýjan stað. Ég er sjálf vongóð en það kannski bara óskhyggjan að tala," sagði hún í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×