Fótbolti

Dortmund: Lewandowski fer hvergi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Forráðamenn þýska úrvalsdeildarfélagsins Dortmund þvertaka fyrir fréttir þess efnis að sóknarmaðurinn Robert Lewandowski sé á leið frá félaginu og til Manchester United.

Haft var eftir Franciszek Smuda, landsliðsþjálfara Póllands, í síðustu viku að Lewandowski myndi ganga í raðir United í sumar. Hann sagði einnig að landsliðsfyrirliðinn Kuba væri einnig á leið til Englands og að bakvörðurinn Lukasz Piszczek myndi fara til Real Madrid.

Framkvæmdarstjóri Dortmund, Hans-Joachim Watzke, gaf lítið fyrir þetta og efaðist um að rétt hefði verið haft eftir Smuda.

„Ég hef nú sagt í margar vikur að Robert muni mæta aftur til æfinga hjá okkur eftir sumarfrí. Það er það sem mun gerast," sagði Watzke við þýska fjölmiðla.

„Ég er orðinn dauðþreyttur á þessum sögusögnum. Mér er í raun alveg sama um hvað fjölmiðlar í Póllandi segja. Ég veit nákvæmlega hvernig pólskir fjölmiðlar starfa og hversu trúanlegar þessar fréttir eru."

„Ég hef þekkt Smuda í mörg ár og við höfum verið í góðu sambandi. Ég tel ólíklegt að hann hafi sagt þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×