Handbolti

Snorri Steinn: Skemmtilegra með landsliðinu en félagsliðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, segir æfingaleikina gegn Argentínumönnum um á laugardag og mánudag kærkomna í undirbúnigi liðsins fyrir Ólympíuleikana í London.

Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik sínum á leikunum en næsti andstæðingur þar á eftir er lið Túnis. Íslenska liðið marði sigur á Túnis á æfingamóti í Frakklandi um síðustu helgi.

Snorri Steinn segir andann í landsliðinu frábæran líkt og fyrir fjórum árum þegar íslenska liðið vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking.

„Andinn er frábær og stemmningin frábær. Auðvitað er þetta aðeins breytt lið en kjarninn er sá sami. Ég held að allir séu ánægðir með að fara á leikana sem eru forréttindi og svo líka að vera heima og æfa með landsliðinu," segir Snorri sem segir skemmtilegra að æfa með strákunum í landsliðinu en mæta til æfinga í atvinnumennskunni.

„Flestir segja að það sé skemmtilegra en að æfa með liðunum úti án þess að ég sé að hrauna of mikið yfir þau lið," segir Snorri.

Snorri segir að líkja mætti því við slys ef íslenska liðið kæmist ekki upp úr riðli sínum á Ólympíuleikunum.

„Það væri slys. Við getum kvittað undir það án þess að sýna hroka. Það er klárt að við ætlum upp úr riðlinum og meira til. En þetta er langur vegur og við þurfum að vera á tánum frá byrjun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×