Enski boltinn

Modric látinn æfa með varaliði Tottenham

Hjörtur Hjartarson skrifar
Króatinn, Luca Modric, miðjumaðurinn öflugi hjá enska úrvalsdeildarliði Tottenham, hefur verið skipað að mæta á æfingu hjá varaliði félagsins þar sem hann neitaði að ferðast með aðalliðinu í æfingaferð félagsins til Bandaríkjanna. Modric hefur beðið félagið afsökunar á því upphlaupi sem fjarvera hans hefur valdið en stendur hinsvegar ennþá fast á sínu að vilja fara frá félaginu.

Modric vonast til að Real Madrid samþykki uppsett kaupverð Tottenham sem sagt er nema 40 milljónum punda. Lundúnarliðið vonast til að áhugi franska stórliðsins, Paris st. Germain hækki verðmiðann á Modric en sjálfur hefur leikmaðurinn sagt að hann hafi engan áhuga að ganga í raðir Parísarliðsins.

Þrátt fyrir að fátt bendi til annars en að Modric muni leika knattspyrnulistir sínar fjarri ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili vonast Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóri Tottenham enn til þess að hann haldi leikmanninum hjá félaginu.

"Allir þjálfarar myndu vilja hafa leikmann eins og Modric í sínum röðum. Hann er ennþá leikmaður Tottenham og sem stendur reikna ég með því að hann verði það áfram", sagði Villas-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×