Kolbeinn Sigþórsson, framherji Ajax og íslenska landsliðsins, verður ekki með landsliðinu í fyrstu leikjum liðsins í undankeppni HM 2014. Þetta staðfesti landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck á blaðamannafundi í dag.
Kolbeinn er meiddur á öxl og hefur ekkert spilað með Ajax síðan að hann skoraði tvö mörk í sigrinum á Færeyjum á Laugardalsvelli á dögunum. Kolbeinn hefur skorað 8 mörk í fyrstu 11 landsleikjum sínum og verður sárt saknað á móti Noregi.
Kolbeinn mun koma til móts við landsliðið en það mun samt ekki breyta því að hann er heldur ekki klár í að spila leikinn á móti Kýpur sem er á þriðjudaginn kemur.
Kolbeinn er ekki eini þekkti framherji íslenski landsliðsins sem verður ekki með liðinu því Björn Bergmann Sigurðarson er meiddur og Lagerbäck velur ekki reynsluboltana Eið Smára Guðjohnsen og Heiðar Helguson.
Norðmenn slá því líka upp á sínum miðlum að stjörnuframherji íslenska landsliðsins verði ekki með í leiknum á móti þeim á morgun.
Íslenski boltinn