Handbolti

Trefilov rekinn úr starfi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Evgeny Trefilov, þjálfari kvennalandsliðs Rússlands í handbolta, var í gær rekinn af stjórn rússneska handknattleikssambandsins.

Trefilov er afar skrautlegur þjálfari og þekktur fyrir að vera með mikil læti á hliðarlínunni. Sérstaklega virðist hann harður gagnvart eigin leikmönnum og lætur þá óspart heyra það finnst honum minnsta tilefni til þess.

Trevilov hefur þó náð frábærum árangri í gegnum tíðina og hefur liðið til að mynda orðið heimsmeistari fjórum sinnum undir hans stjórn auk þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og Evrópumeistaramótum.

En liðið hefur ekki komist á verðlaunapall síðan að liðið varð heimsmeistari árið 2009 og er slakur árangur þess bæði á HM í Brasilíu í fyrra og Ólympíuleikunum í sumar sögð vera ástæða þess að hann var rekinn nú.

Rússar féllu úr leik á Ólympíuleikunum eftir að hafa tapað fyrir S-Kóreu í fjórðungsúrslitum. Liðið fékk tveggja mínútna brottsvíun vegna mótmæla Trefilov á hliðarlínunni sem hafði þess fyrir utan látið öllum illum látum í leiknum. Eftir leik sagðist hann bera ábyrgð á tapinu en að rússneska landsliðið ætti sér hvort eð er enga framtð.

Trefilov er einnig þjálfari Lada Togliatti, félagsliðs í Rússlandi, en þjálfarar annarra liða í rússnesku úrvalsdeildinni lýstu nýverið yfir óánægju sinni með störf Trefilov í bréfi til íþróttamálaráðherra þar í landi.

Stjórn rússneska handboltasambandsins ákvað svo einróma á fundi sínum í gær að reka Trefilov úr starfi og eru nú að leita að eftirmanni hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×