Handbolti

Andersson samdi við KIF Kaupmannahöfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Sænska stórskyttan Kim Andersson mun spila með hinu nýstofnaða KIF Kaupmannahöfn í dönsku úrvalsdeildinni í vetur. Hann var kynntur á blaðamannafundi í dag sem nýr leikmaður félagsins.

Andersson skrifaði undir þriggja ára samning en fyrr í sumar gekk hann til liðs við AG Kaupmannahöfn sem var svo stuttu síðar úrskurðað gjaldþrota. Hann var áður á mála hjá Kiel í Þýskalandi.

KIF Kaupmannahöfn er sameinað lið nokkurra fyrrum leikmanna AG og Kolding. Liðið spilar til skiptis heimaleiki sína í Kolding og Bröndby.

Danski markvörðurinn Kasper Hvidt er einn þeirra sem hafa átt hvað stærstan þátt í því að koma þessu félagi á fót.

„Kasper Hvidt hringdi í mig og sagði mér frá félaginu. Mér fannst þetta mjög spennandi verkefni. Eftir að ég talaði svo við Jens Boesen (framkvæmdarstjóra) var ég ekki í vafa um að þetta er það sem ég vildi gera. Ég var í sjö ár í Þýskalandi og því vildi ég prófa eitthvað nýtt."

Andersson vildi flytja til Danmerkur til að vera nær fjölskyldu sinni í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×