Fótbolti

Aron skoraði tvö og lagði upp eitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Aron í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Aron Jóhannsson hefur nú skorað átta mörk í síðustu þremur leikjum sínum með danska liðinu AGF. Liðið vann 3-2 sigur á Midtjylland í dag og átti Aron stórleik.

Aron kom sínum mönnum yfir á elleftu mínútu en Midtjylland náði að jafna metin um stundarfjórðungi síðar.

Aron skoraði aftur nítján mínútum fyrir leikslok og lagði svo upp þriðja mark AGF rétt fyrir leikslok. Midtjylland minnkaði muninn með marki í uppbótartíma.

Hann skoraði öll fjögur mörk AGF í 4-1 sigri á Horsens þann 27. ágúst síðastliðinn og skoraði svo tvívegis í 4-0 sigri á Silkeborg fyrir tveimur vikum síðan.

Aron hefur greinilega haldið sér á tánum í landsleikjafríinu því hann hélt uppteknum hætti í dag og er nú alls kominn með níu mörk í níu leikjum á tímabilinu í dönsku úrvalsdeildinni. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar.

AGF vann aðeins einn sigur í fyrstu sex leikjum sínum á tímabilinu en eftir að Aron byrjaði að raða inn mörkunum hefur liðið unnið nú þrjá leiki í röð. Liðið hoppaði úr sjöunda sæti í það fjórða með sigrinum í dag og er nú með fjórtán stig eftir níu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×