Handbolti

Ásbjörn og Ólafur í sigurliðum

Ólafur er að komast í gang eftir meiðsli
Ólafur er að komast í gang eftir meiðsli
Íslenskir handboltamenn létu að sér kveða í handboltanum Skandinavíu í dag. Ásbjörn Friðriksson og félagar í Alingsås unnu góðan sigur á Skånela 30-23 og eru enn ósigraðir í sænsku úrvalsdeildinni.

Ásbjörn skoraði þrjú mörk í leiknum í dag en Alingsås er með fimm stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar en alls eru fimm lið ósigruð í upphafi móts.

Kristianstad, lið Ólafs Guðmundssonar, er í efsta ásamt Lugi með fullt hús stiga í þremur leikjum. Ólafur er að spila sig í gang eftir meiðsli og skoraði eitt mark í 27-21 sigri á HK Aranäs.

Það var Íslendingaslagur þegar norska úrvalsdeildin fór af stað í dag. Sigurður Ari Stefánsson var ekki á meðal markaskorara Elverum sem gerðu 29-29 jafntefli við Nøtterøy Håndball á heimavelli sínum. Hreiðar Leví Guðmundsson er markvörður Nøtterøy.

Ramúne Pekarskyté var næst markahæst hjá Levanger sem gerði 22-22 jafntefli við Vipers Kristiansand í norsku úrvalsdeildinni. Nína Björk Arnfinnsdóttir skoraði eitt mark. Ramúne hefur átt við meiðsli að stríða og er jákvætt að hún sé kominn af stað á ný. Hún er gjaldgeng í íslenska kvennalandsliðið og verður spennandi að sjá hvort hún verði í næsta landsliðshópi verði hún heil.

Markaskorarar eru fengnir af vefsíðunni handbolti.org.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×