Úkraínska kvennalandsliðið verður mótherji Íslands í umspilinu um laust sæti á Evrópumótinu í Svíþjóð en það var dregið í dag. Líkt og með íslenska liðið þá var Úkraína með á Evrópumótinu í Finnlandi fyrir fórum árum síðan.
Bæði lið Íslands og Úkraínu komust á EM 2009 í gegnum umspil og þekkja því að fara þessa leið. Ísland komst þangað með 3-0 heimasigri á Írlandi en Úkraína með tveimur sigrum á Slóveníu sem var einmitt í riðli með Íslandi.
Úkraína vann 1-0 sigur á gestgjöfum Finna í síðasta leik sínum í úrslitakeppninni 2009 en sat engu að síður eftir í riðlinum þar sem liðið tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Hollandi og Danmörku.
Úkraínska liðið hefur verið á miklu flugi á þessu ári og vann 4 af 5 síðustu leikjum sínum í riðlinum þar af þrjá síðustu útileikina með markatölunni 8-0.
Úkraína er í 23. sæti á styrkleikalista FIFA eða sjö sætum á eftir Íslandi.
Íslenski boltinn