Handbolti

Þjálfaralausir Bretar töpuðu stórt fyrir Grikkjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Markvörðurinn Robert White átti ótrúlegan leik gegn íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar.
Markvörðurinn Robert White átti ótrúlegan leik gegn íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar. Nordic Photos / Getty Images
Breska handboltalandsliðið sló í gegn á Ólympíuleikunum í London í sumar, sem og handboltaíþróttin sjálf. Liðið lék í dag sinn fyrsta leik eftir leikana og tapaði stórt.

Bretar mættu Grikkjum á útivelli og töpuðu með tæplega 30 marka mun, 43-14. Leikurinn var liður í forkeppni EM 2016.

Breska handboltasambandið fær lítinn fjárstuðning frá hinu opinbera og því þurftu leikmenn sjálfir að taka þátt í fjáröflun til að geta komið sér til Grikklands.

Dragan Djukic hætti sem landsliðsþjálfari eftir leikana og hefur sambandið ekki haft efni á að ráða annan þjálfara í hans stað.

Leikmenn breska landsliðsins hafa gefið það út að þeir stefni ótrauðir á Ólympíuleikana í Ríó eftir fjögur ár og bíða þeir nú ákvörðunar yfirvalda um hvort þeir fái fjárstyrk til þess að halda utan um liðið á næstu árum.

Aðeins tólf landslið komast á Ólympíuleika hverju sinni og er óhætt að fullyrða að nánast engar líkur eru á því að Bretar komist til Ríó eftir fjögur ár - ekki síst miðað við frammistöðuna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×