Íslenska kvennalandsliðið spilar um fimmta sætið í Algarve-bikarnum í ár eftir 1-0 sigur á Kína í lokaleik riðilsins í gær. Fanndís Friðriksdóttir kom inn á sem varamaður og tryggði íslenska liðinu leik um fimmta sætið sem verður á móti Dönum á miðvikudaginn.
Fanndís hafði ekki náð að skora í fyrstu 23 landsleikjum sínum með A-landsliðinu og Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari ákvað að taka hana út úr byrjunarliðinu en Fanndís byrjaði bæði gegn Þjóðverjum og Svíum.
„Ég var búin að bíða svolítið eftir þessu marki. Nú er gaman að þetta sé komið og vonandi koma fleiri í kjölfarið. Ég var búin að vera í byrjunarliðinu í tveimur fyrstu leikjunum en svo var ég tekin út fyrir þennan leik. Þá er gott að geta sýnt það að maður vill vera inni á vellinum," sagði Fanndís.
„Fanndís hefur mest verið á kantinum hjá okkur en hefur langað að spila frammi veit ég. Hún nýtti tækifærið vel þegar hún fékk að fara fram. Það er mjög jákvætt. Við stólum mikið á markaskorunina hjá Margréti Láru og Hólmfríði og það er mjög jákvætt ef fleiri leikmenn taka ábyrgð á því að skora mörk. Hún kláraði færið sitt mjög vel og þær komu mjög sterkar inn í framlínuna, Fanndís og Harpa," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari, en kínversku stelpurnar björguðu á marklínu frá Hörpu Þorsteinsdóttur skömmu áður en Fanndís skoraði.
Hólmfríður Magnúsdóttir átti stoðsendinguna á Fanndísi í markinu og hefur því lagt upp bæði mörk íslenska liðsins á mótinu.
„Fríða gaf gullfallega sendingu inn fyrir og ég kláraði með vinstri. Ég setti boltann milli lappanna á markverðinum, það er klassík. Við vorum miklu betri allan tímann og hefðum getað verið búnar að skora eitt til tvö mörk," sagði Fanndís kát en hún er eldfljót og þær eru ekki margar sem ná henni þegar hún er komin á ferðina. „Þær náðu mér allavega ekki í þetta skiptið," sagði Fanndís hlæjandi.
Sigurður Ragnar var ánægður með leik íslenska liðsins. „Þær spiluðu mjög vel. Við vorum að prófa 4-4-2 og ég var ánægður með að það gekk svona vel. Við héldum skipulaginu mjög vel og þær voru að berjast og hlaupa fyrir hver aðra. Ég held að það hafi skilað þessum sigri í lokin að þær héldu alltaf áfram," sagði Sigurður Ragnar og fram undan er leikur um fimmta sætið á móti Dönum á morgun.
„Við viljum fá sem mest af leikjum á móti sterkum liðum því þangað erum við að stefna. Ég er mjög ánægður með að við mætum Danmörku. Það er hörkugott lið og verður gott próf fyrir okkur," sagði Sigurður Ragnar.
Íslenski boltinn