Handbolti

Ágúst: Virkilega mikið undir fyrir okkur í þessum leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rut Jónsdóttir
Rut Jónsdóttir
Íslenska kvennalandsliðið mætir Sviss ytra í dag í undankeppni EM. Þetta er þriðji leikur íslenska liðsins í riðlinum. Fyrstu tveir leikirnir töpuðust þannig að stelpurnar þurfa nauðsynlega á sigri að halda í dag ætli þær sér að eygja von um að komast í lokakeppni EM.

„Það er mikilvægt að ná í tvö stig í þessum leik og virkilega mikið undir í þessum leik fyrir okkur. Það væri kannski ekki alger dauðadómur að tapa þessum leik en það myndi gera stöðuna virkilega erfiða," sagði landsliðsþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson við Fréttablaðið í gær er liðið var nýlent í Sviss.

„Við förum í leikinn með því hugarfari að vinna. Sviss er fyrirfram slakasta liðið í riðlinum en fyrir okkur eru allir leikir erfiðir. Tala nú ekki um á útivelli. Sviss hlýtur að sjá möguleika gegn okkur þannig að við þurfum að ná gæðunum í gegn hjá okkur til þess að leggja þær af velli."

Ágúst er búinn að skoða svissneska liðið vel fyrir leikinn og á ekki von á því að þær komi íslenska liðinu á óvart.

„Þær eru með jafnt lið en á góðum degi eigum við að vinna og lyfta okkur aðeins upp í riðlinum. Við höfum farið yfir þeirra leik og vitum hverju við erum að mæta að þessu sinni."

Rut Jónsdóttir er stærsta spurningamerkið fyrir leikinn en hún er meidd en hefur samt náð að æfa með liðinu. Þorgerður Anna Atladóttir gat ekki komið með liðinu vegna meiðsla og þær Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Sunneva Einarsdóttir og Ester Óskarsdóttir eru hvíldar að þessu sinni.

Liðin mætast svo á nýjan leik í Vodafonehöllinni næstkomandi sunnudag. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18.30 og er sýndur í beinni útsendingu á Rúv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×