Þrjú hundruð milljóna króna greiðsla Þreks ehf., fyrrverandi rekstrarfélags World Class, til Lauga ehf., núverandi rekstrarfélags, stendur óhögguð samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær.
Björn Leifsson í World Class stofnaði bæði félögin en Þrek er farið í þrot og taldi skiptastjóri þess að greiðslan hefði verið gjafagerningur.
Björn sagði greiðsluna vera hluta af skuldauppgjöri vegna húsnæðis World Class á Seltjarnarnesi, en 40 prósenta hlutur í því færðist formlega frá Laugum ehf. til Þreks ehf. með kaupsamningi í janúar 2008.
Skiptastjórinn taldi kaupsamninginn hafa verið gerðan til málamynda, enda hafi húsnæðið í raun allan tímann verið eign Þreks. Þetta telur dómurinn ósannað og sýknar því Laugar ehf. - sh

